Greiningardeild Landsbankans gerir ráð fyrir að vísitala neysluverðs (VNV) lækki um 0,3% í janúar. Gangi spáin eftir lækkar tólf mánaða verðbólga úr 3,9% í 3,6%. Útsöluáhrif vega þungt til lækkunar í spánni en vetrarútsölur hefjast flestar í byrjun janúar og eru sumar hverjar nú þegar hafnar.

Forsendur spárinnar fela það því í sér að fatnaður og skór lækki töluvert milli mánaða en í fyrra lækkaði liðurinn um tæp 11% og gerum við ráð fyrir álíka lækkun í ár. Húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. hafa einnig áhrif til lækkunar vísitölunnar en húsgagnaútsölur hafa færst í aukana á unanförnum árum. Lækkanir á eldsneytisverði hafa auk þess 0,13% áhrif til lækkunar vísitölunnar. Olíufélögin hafa nú þegar lækkað bensínverð um 5% en heimsmarkaðsverð á olíu er að meðaltali 14% lægra en það var í fyrri mánuði.

Á móti þessum lækkunum vegur hækkun á markaðsverði húsnæðisverðs en þó er gert ráð fyrir því að hækkunin verði minni en hún hefur verið síðastliðna mánuði í ljósi þess að yfirleitt hægir á fasteignaveltu í desember. Aðrir liðir líkt og hækkun á komugjöldum á heilsugæslustöðvar, hækkun leikskólagjalda o.fl hafa einnig áhrif til hækkunar en áhrifin eru minni. Spáin kann þó að vera endurskoðuð verði breytingar á einhverjum þeim þáttum sem vega þungt í vísitölunni.