Endurreikna þarf fjölda lána bæði til einstaklinga og fyrirtækja sem eru í viðskiptum við Landsbankann í kjölfar gengislánadóms Hæstaréttar í gær. Bankinn vill ekki fullyrða hvort niðurstaðan hafi áhrif á öll lán sem hafi verið endurreiknuð eða eigi eftir að endurreikna. Bankinn segir dóminn munu lækka eiginfjárhlutföll bankans. Ekki liggi fyrir nú hver þau verði.

Í tilkynningu frá Landsbankanum kemur fram að væntanlega hafi dómurinn í för með sér að eindurreina þurfi á ný fjölda lána, bæði íbúðalán einstaklinga, lán til fyrirtækja og lán sem Landsbankinn tók yfir við samruna bankans frá SpKef og fjármögnunarfyrirtækjunum SP-Fjármögnun og Avant.

Bankinn segir þó að dómurinn breyti þeim endurreikningsaðferðum sem kveðið hafi verið á um í lögunum sem tóku gildi eftir dóm Hæstaréttar árið 2010 þegar hann dæmdi gengislánin ólögmæt. Bankinn hefur byggt á þeim aðferðum til þessa.

Þá segir í tilkynningu Landsbankans að í uppgjöri bankans í lok september 2011 hafi eiginfjárhlutfall hans verið 23,6%. Þótt endurreikningur muni hafa áhrif til lækkunar á eiginfjárhlutfalli sé ljóst að eftir sem áður verður eigið fé umtalsvert yfir tilskyldum mörkum. Um leið og nákvæm tala liggur fyrir verði gerð grein fyrir henni.