*

þriðjudagur, 25. janúar 2022
Innlent 30. nóvember 2020 09:25

Landsframleiðsla dróst saman um 10,4%

Á þriðja ársfjórðungi dróst landsframleiðsla hérlendis saman um 10,4%, að meðaltali dróst hún saman um 4,4% á evrusvæðinu.

Ritstjórn
þann mikla samdrátt í landsframleiðslu hérlendis má að mestu leyti rekja til neikvæðra áhrifa utanríkisviðskipta.
Haraldur Guðjónsson

Verg landsframleiðsla á Íslandi dróst saman um 10,4% á þriðja ársfjórðungi 2020 að raungildi borið saman við sama tímabil fyrra árs. Til samanburðar er áætlað að landsframleiðsla á evrusvæðinu hafi dregist saman um 4,4% á téðu tímabili. Frá þessu er greint á vef Hagstofunnar.

„Þennan mikla samdrátt í landsframleiðslu á þriðja ársfjórðungi má því að mestu leyti rekja til neikvæðra áhrifa utanríkisviðskipta. Þar vegur þyngst samdráttur í útflutningi ferðaþjónustu sem dróst saman um 77% á tímabilinu borið saman við sama tímabil árið 2019,“ segir í grein Hagstofunnar.

Þjóðarútgjöld, sem er samtala neyslu og fjárfestingar, dróst saman um 2,7% og áætlað er að einkaneysla hafi dregist saman um 2,3%, að raungildi. Samdráttur í fjármunamyndun er áætlaður 15,2% en áætlað er að samneysla hafi aukist um 4,4% á milli ára. Á þriðja ársfjórðungi 2020 dróst útflutningur saman um 38,8% en innflutningur um 26,3%.

Á fyrstu níu mánuðum ársins er áætlað að landsframleiðsla hafi dregist saman um 8,1% borið saman við fyrstu níu mánuði ársins 2019.

Mestur samdráttur hérlendis

Sé raunbreyting landsframleiðslu borin saman við sama tímabil fyrra árs mælist mestur samdráttur á Íslandi af öllum Evrópulöndum sem birt hafa spár sínar. Næst mestur er samdráttur í Bretlandi eða 9,6%, nær prósentustigi minni en hér á landi. Að meðaltali nemur samdráttur 4,4%.

Ef landsframleiðsla er skoðuð milli þriðja og annars ársfjórðungs, árstíðaleiðrétt, jókst landsframleiðsla um 12,6% að raungildi. Áætlað er að landsframleiðsla hafi aukist um 2,6% að raungildi hérlendis.