Ekki þarf mikla útreikninga til að leiða í ljós hversu lágt raungengi krónu er um þessar mundir, heldur finna flestir landsmenn áhrif raungengisins á eigin skinni.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka í morgun en raungengi krónu í apríl var nærri sögulegum lægðum miðað við undanfarna áratugi. Aðeins í nóvember í fyrra hefur raungengið mælst lægra samkvæmt vísitölu Seðlabankans sem byggir á hlutfallslegu verðlagi á Íslandi og í viðskiptalöndum okkar.

„Laun meðal Íslendingsins hrökkva þannig mun skemmra en áður þegar kemur að því að borga fyrir ferðakostnað á erlendri grundu eða innflutta vöru,“ segir í Morgunkorni.

„Að sama skapi hefur kaupmáttur nágrannaþjóða á hérlendri þjónustu og innlendum vörum hækkað mikið undanfarið. Á móti kemur að samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja í útflutningsgreinum eða þeim greinum sem keppa við innflutning hefur batnað mikið.“

Greining Íslandsbanka segir þó að jákvæðum áhrifum þessa á þjóðarbúskapinn séu hins vegar takmörk sett vegna þess hve helstu útflutningsgreinar okkar eru skorðaðar hvað framleiðslugetu varðar. Þannig sé hvorki hægt að stórauka fiskútflutning né álframleiðslu þótt lágt raungengi bæti samkeppnisstöðu þessara greina að vissu marki.

Sjá nánar í Morgunkorni.