Væntingavísitala Gallup hrapaði um 16,5 stig milli mánaða í október. Gildi hennar er nú 52,9 stig og svipar lækkunin nú í október til þess sem gerðist á sama tíma í fyrra, að því er greining Íslandsbanka segir í Morgunkorni í dag.

Greining telur líklegast að lækkun vísitölunnar milli mánaða tengist setningu Alþingis, og mótmælum sem voru henni tengdri. Það komi ekki á óvart, enda geri mótmælin afar sýnileg þau efnahagslegu og félagslegu vandamál sem landsmenn glíma við í kjölfar hrunsins.

Af undirvísitölum lækkaði sú sem á að endurspegla mat á núverandi ástandi um 8,9 stig, og mælist 14,8 stig sem er lægsta gildi hennar frá því í apríl sl. Mat á væntingum til ástandsins eftir 6 mánuði lækkar um 21,5 stig og mat á efnahagsástandinu lækkar um 7,9 stig.

Vísitalan mælist á skalanum 0 til 200. Ef gildi hennar er 100 eru jafn margir bjartsýnir og svartsýnir á efnahagshorfur í landinu.