Væntingarvísitala Gallup stendur í 61,2 stigum og hefur ekki verið hærri síðan fyrir hrun. Allar undirvísitölur hækkuðu á milli maí og júni og bendir til að væntingar neytenda til efnahags- og atvinnumála eru bjartari nú en fyrir mánuði síðan. Greining Íslandsbanka fjallar um væntingarvísitöluna í dag.

Gallup birti einnig mælingu á ársfjórðungslegri vísitölu um fyrirhuguð stórkaup. Vísitalan hefur hækkað um sex stig frá síðustu mælingu og mælist nú 52,2 stig sem er hæsta gildi hennar frá bankahruni. Undirvísitölur fyrir bifreiðakaup, íbúðakaup og utanlandsferðir hækkuðu allar og þar af hækkaði vísitala bifreiðakaupa um 11 stig og er nú 23,1. Ef marka má vísitöluna mun því bifreiðamarkaður glæðast á næstunni samhliða íbúðakaupum og utanlandsferðum.