Spilavinir högnuðust um 26 milljónir króna á síðasta ári en árið áður nam hagnaður 4 milljónum króna og ríflega sexfaldaðist hagnaðurinn því milli ára. Þá jukust tekjur Spilavina um 95% milli ára, úr 116 milljónum árið 2019 í 226 milljónir árið 2020. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 32 milljónum króna og tæplega fimmfaldaðist frá fyrra ári. Spilavinir er verslun sem selur ýmiss konar leiki og borðspil. Verslunin, sem er í Bláu húsunum við Faxafen, var stofnuð árið 2007 af vinkonunum og spilaunnendunum Lindu Rós Ragnarsdóttur og Svanhildi Evu Stefánsdóttur.

Svanhildur kveðst vitaskuld ánægð með góðan árangur síðasta árs og segir árangurinn fyrst og fremst starfsfólki verslunarinnar að þakka. „Við vinkonurnar höfum staðið vaktina í fjórtán ár og höfum í gegnum tíðina fengið til liðs við okkur frábært starfsfólk. Við höfum einnig lengt opnunartíma verslunarinnar, lagt mikið púður í heimasíðuna okkar og það var afar mikilvægt eftir að Covid skall á að hafa þegar komið á koppinn netverslun. Allt framangreint skýrir að einhverju leyti aukna sölu, auk þess sem samkomutakmarkanir sköpuðu auðvitað meiri tíma fyrir fjölskyldur og vini til þess að spila saman."

Spilasamfélag

Hún bendir á að Spilavinir séu meira en bara verslun sem selur spil, heldur sé um að ræða eins konar spilasamfélag, en um margra ára skeið hafa með reglubundnum hætti verið haldin opin spilakvöld í versluninni þar sem fólk getur mætt og lært að spila ný spil. „Við höfum lagt áherslu á þær gæðastundir sem fjölskyldur og vinir geta átt saman yfir spilum. Þegar Covid skall á og fólk var komið í aðstæður sem það var óöruggt í virðast margar fjölskyldur og vinahópar hafa gripið í spil til að stytta sér stundir og búa til gleðistundir við skrítnar aðstæður. Fólk leitaði mikið til okkar í leit að spilum og fyrir það erum við mjög þakklát, þar sem þessi áhersla okkar á gæðasamverustundir yfir spilum virðist hafa skilað sér inn á mörg heimili," segir Svanhildur og bætir við að umrædd spilakvöld hafi verið uppspretta ófárra vinasambanda í gegnum tíðina.

„Það hefur alltaf verið gífurleg aðsókn í spilakvöldin okkar og við höfum notið þess mjög sem gestgjafar að kenna fólki hin ýmsu spil. Á þessum viðburðum hafa myndast margir vinahópar. Þessir hópar héldu sumir hverjir hópinn á meðan staða faraldursins var sem verst og hittust í smáum hópum til að spila. Þessi vinskapur sem hafði myndast á spilakvöldunum hjálpaði því til við að spila-áhugafólk einangraðist ekki of mikið."

Svanhildur kveðst ekki eiga von á að svo mikil veltu- og hagnaðaraukning verði viðvarandi ástand. Þær stöllur séu með báðar fætur á jörðinni. Hún segir að hver króna sem kom inn í fyrirtækið í fyrra verði nýtt til að styrkja og bæta reksturinn, eins og tíðkast hafi allt frá stofnun verslunarinnar. „Við höfum t.d. stækkað spilasafnið okkar verulega í gegnum árin og bætt spilasvæði verslunarinnar. Við munum halda því ótrauð áfram til að vera sem best í stakk búin til að miðla spilamenningunni til íbúa landsins. Þar að auki hafa aukin umsvif gert okkur kleift að skapa störf fyrir spilaáhugafólk. Ég og Linda erum einstaklega stoltar af því að hafa skapað atvinnu fyrir fólk sem, rétt eins og við, brennur fyrir að spila."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Ítarleg úttekt á íslenskum vísisjóðum og fjármögnunarumhverfi sprotafyrirtækja.
  • Rýnt er í umdeildan samanburð á fjölda sjúklinga á Landspítala í faraldrinum nú og í svínaflensunni árið 2009.
  • Handverksbrugghús landsins komu misvel undan faraldri en formaður samtaka þeirra telur tilefni til að ryðja hindrunum úr vegi geirans.
  • Heimilisfesti fyrrverandi forstjóra íslensks félags var úrskurðuð inn í landið og opinber gjöld hans endurákvörðuð í kjölfarið.
  • Rætt er við Óttar Örn Sigurbergsson en hann tekur við sem framkvæmdastjóri Elko í byrjun næsta árs.
  • Hannes Smárason tók á ný við sem forstjóri Genuity Science, áður WuXi NextCode, og leiddi sölu þess til bandarísks félags.
  • Nýsköpunarfélag á Norðurlandi fullvinnur æðardún og nýtir í sængur og útivistarvörur. Freista þess einnig að framleiða 100% endurunnið plast.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað, auk Týs sem fjallar um borgarmálin.
  • Óðinn skrifar um óréttlæti.