Hagstofan birti í dag nýjar tölur yfir fjölda landsmanna en þeim fjölgaði um 2.790 á þriðja ársfjórðungi þessa árs.

Fæddir umfram dána voru 570 manns en langmest fjölgun er vegna búferlaflutninga til landsins en aðfluttir umfram brottflutta voru 2.180 á tímabilinu eða sem nemur 78% af fólksfjölgun á fjórðungnum. Íslenskir ríkisborgarar sem fluttu erlendis voru þó 150 umfram brottflutta og erlendum ríkisborgurum búsettum á Íslandi fjölgar því um 2.330. Búsettir á Íslandi í dag eru því 346.750 en þar af búa um 64% á höfuðborgarsvæðinu en 36% á landsbyggðinni.

Alls fluttust 1.320 íslenskir ríkisborgarar frá landinu og af þeim fluttust 970 til Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar. Af þeim 1.350 erlendu ríkisborgurum sem fluttust frá landinu fóru flestir til Póllands, 340 manns.

Flestir aðfluttir íslenskir ríkisborgarar komu frá Danmörku, Noregi og Svíþjóð, 810 af 1.170. Pólland var upprunaland flestra erlendra ríkisborgara en þaðan fluttust 1.310 til landsins af alls 3.670 erlendum innflytjendum. Litháen kom næst, en þaðan fluttust 350 erlendir ríkisborgarar til landsins. Í lok þriðja ársfjórðungs bjuggu 36.690 erlendir ríkisborgarar á Íslandi.