Landsnet hyggst hækka flutningsgjaldskrá félagsins um áramót og segir aðstoðarforstjóri Landsnet hækkunina í fullu samræmi við lög. Þetta er haft eftir honum í Fréttablaðinu í dag. Þar segir hann að hækkunin miðist við að arðsemi félagsins verði innan leyfðra marka og leiði til þess að fyrirtækið geti rækt hlutverk sitt.

Samtök álframleiðenda hafa kært hækkunina til úrskurðarnefndar og telja hana brot á því ákvæði raforkulaga að tekjur verði að vera í samræmi við þann kostnað sem felst í þjónustunni, að teknu tilliti til arðsemi.

Landsnet bendir hins vegar á að gjaldskrá fyrirtækisins til dreifiveitna hafi verið óbreytt frá árinu 2009 og þrátt fyrir umrædda hækkun sé hún enn sjö prósentum undir hækkun almennrar verðlagsþróunar á þeim tíma.