Ný vefsíða Landssambands æskulýðsfélaga, Æskulýðsgáttin, var formlega vígð í gær á alþjóðadegi unga fólksins í höfuðstöðvum Rauða kross Íslands við Efstaleiti. Slóðin á nýja vefinn er http://www.aeska.is .

Fulltrúar aðildarfélaga mættu ásamt öðrum sem starfa við æskulýðsmál og hlýddu á ávarp formanns LÆF um nýju gáttina. Hörður Gunnarsson, einn af stofnendum og fyrrverandi formaður Æskulýðssambands Íslands, ÆSÍ, sem var forveri LÆF, opnaði síðuna en nú eru 50 ár frá stofnun ÆSÍ. Hörður talaði um hina sameiginlegu hugsjón æskulýðssamtaka og mikilvægi að þau eigi vettvang.

„Æskulýðsgáttin hefur alla burði til að vera miðpunktur í upplýsingagjöf um æskulýðsmál á Íslandi, hvort sem um ræðir upplýsingar um skipan æskulýðsmála, um styrki og sjóði, um viðburði og fréttir frá aðildarfélögum LÆF sem eru 24 talsins og frá öðrum félögum og hinu opinbera. Æskulýðsgáttin er ekki eins og listaverk sem þú hengir upp á vegg heldur er í sífelldri þróun,“ segir Jón Þorsteinn Sigurðsson, formaður LÆF, í tilkynningu frá félaginu.