Landsvirkjun hyggst leggja um 12 milljarða króna til ýmissa nýframkvæmda, endurbóta og viðhalds á orkuvinnslusvæðum á næstu þremur árum, veita tímabundna afslætti af raforkuverði til viðskiptavina meðal stórnotenda sem nema um 1,5 milljörðum króna, undirbúa rannsóknar- og þróunarverkefni á Suðurlandi og Norðurlandi í samstarfi við hagaðila í nærsamfélaginu og flýta verkefnum á sviði stafrænnar þróunar. Nýlega var tilkynnt að Landsvirkjun myndi greiða 10 milljarða króna í arð til ríkissjóðs í ár, eða meira en tvöfalt hærri upphæð en á síðasta ári. Vonir standa til að Landsvirkjun muni áfram skila eigendum sínum arði á komandi árum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landsvirkjun.

„Með þessum hætti ætlar eitt stærsta fyrirtæki þjóðarinnar að taka þátt í öflugri viðspyrnu atvinnulífsins í því átaki sem er fram undan í atvinnu- og efnahagsmálum eftir kórónuveirufaraldurinn. Á sama tíma verður áfram lögð áhersla á ráðstafanir til að tryggja örugga orkuvinnslu í aflstöðvum, en orkuvinnslan hefur gengið áfallalaust,“ segir í tilkynningunni.

Landsvirkjun hafi þegar hafið eða undirbúi nú ýmsar aðgerðir í samstarfi við fjölmarga hagaðila. Þær snúi að því að flýta atvinnuskapandi og arðbærum viðhaldsframkvæmdum og fjárfestingum og stuðla að orkutengdri nýsköpun og aukinni sjálfbærri verðmætasköpun tengdri orkuvinnslu víða um land. Í aðgerðum Landsvirkjunar felist meðal annars:

  • Ráðstafanir til að tryggja örugga vinnslu rafmagns á tímum COVID-19.
  • Unnið verður náið með viðskiptavinum á stórnotendamarkaði og tímabundnir afslættir veittir af raforkuverði Landsvirkjunar, hvort heldur er í langtíma- eða skammtímasamningum.
  • Framkvæmdum verður flýtt og ráðist í atvinnuskapandi endurbóta- og viðhaldsverkefni á næstu þremur árum fyrir samtals um 12 milljarða króna.
  • Efnt verður til samstarfsverkefna um orkutengda nýsköpun og orkuskipti. Unnið verður með nærsamfélögum að því að undirbúa orkutengd tækifæri framtíðar til dæmis við matvælaframleiðslu, sjálfbæra nýtingu auðlinda, sprota og að undirbúa svæði til að taka á móti nýjum orkutengdum fjárfestingum. Einnig er verið að skoða verkefni á sviði orkuskipta með sveitarfélögum.
  • Áhersla verður lögð á að flýta ýmsum verkefnum í stafrænni þróun sem styðja við orkuvinnsluna, stafræn kerfi og þjónustu Landsvirkjunar.
  • Um 220 nemar og ungmenni fá störf við fjölbreytt verkefni hjá Landsvirkjun í sumar.

„Þjóðin þarf að lyfta grettistaki á komandi mánuðum og árum, til að vinna upp efnahagslegan skaða af heimsfaraldrinum. Við hjá Landsvirkjun ætlum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að auðvelda eigendum fyrirtækisins þá baráttu. Landsvirkjun stendur vel að vígi og mun áfram geta tryggt örugga orkuvinnslu með endurnýjanlegum orkugjöfum og unnið að kolefnishlutleysi 2025. Því til viðbótar grípum við til ýmissa ráðstafana til að styðja við viðskiptavini okkar, ráðast í atvinnuskapandi verkefni og stuðla að orkutengdri og loftslagsvænni nýsköpun," segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, í fréttatilkynningunni.