Landsvirkjun hefur keypt hluta af eigin bréfum, í skuldabréfaflokknum LAND 05 1, fyrir 7,96 milljarða króna að nafnvirði. Kaupverðið mun hafa verið rúmir fjórtán milljarðar króna. Skuldabréfaflokkurinn er skráður í Kauphöll Íslands. Þetta kemur fram á vef Landsvirkjunar. Kaupin eru liður í skuldastýringu félagsins og eru í samræmi við fyrri tilkynningu þar sem lýst var yfir áhuga að kaupa eigin bréf. Þar kom fram að áhugi væri fyrir því að kaupa fyrir allt að 20 milljarða fram til 1.mars 2015. Landsvirkjun áskilur sér rétt til þess að hafna öllum tilboðum sem kunna að berast.

Á Haustfundi Landsvirkjunar á dögunum kom fram að fyrirtækið hefði greitt niður skuldir fyrir 50 milljarða á síðustu fjórum árum.