Landsvirkjun leiðréttir í dag á vef sínum það sem félagið kallar rangfærslur um fjárhag og stöðu Landsvirkjunar.

Þannig segir Landsvirkjun að um mitt ár hafi heildarskuldir Landsvirkjunar 3,1 milljarði Bandaríkjadala sem nemi um 380 milljörðum króna á núverandi gengi. Á móti komi að heildareignir Landsvirkjunar nemi á sama tíma 4,5 milljörðum dala og eiginfjárhlutfallið sé 31,2% sem sé meira eigin fé en hjá Íslandsbanka og nýja Kaupþingi samanlagt.

„Rétt er að Landsvirkjun skuldar verulegt fé eftir að hafa þrefaldað framleiðslugetu fyrirtækisins frá árinu 1995 með byggingu Sultartangavirkjunar, Vatnsfellsvirkjunar og Hágöngumiðlunar, stækkunar virkjana við Búrfell, Blöndu og Kröflu, að ógleymdri Kárahnjúkavirkjun auk fjölmargra annarra smárra og stórra verkefna,“ segir á vef Landsvirkjunar.

„Allt var þetta gert á grundvelli alþjóðlegrar fjármögnunar og án þess að nýtt eigið fé væri lagt til fyrirtækisins.“

Þá bendir Landsvirkjun jafnframt á að ástæða sé til að benda á staðreyndavillu sem kemur fram í rökstuðningi fyrir orku- og auðlindaskatti í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2010 og vísar í eftirfarandi texta:

„Með hóflegu gjaldi er hægt að ná miklum tekjum af orkusölunni. Þannig gæfi 1 kr/kWh af innlendri raforku um 16 milljarða króna. Með hliðsjón af því hve orkunýtingin er mikið betri í hitaorku standa rök til þess að gjald á hana yrði verulega lægra.“

Landsvirkjun segir að hið rétta sé að nýtni sé mun betri í raforkuvinnslu með vatnsafli en við hitun. Vatnsorkuver vinna um 75% af raforku landsins og þar er orkunýtni um 93-95%. Nýtnin er svipuð í flutnings- og dreifikerfum rafmagnsins. Í jarðhitaverum er nýtni 10-15% við raforkuvinnslu. Nýtni jarðvarma við húsahitun er um 60-70%.

Sjá nánar á vef Landsvirkjunar.