Þann 15. maí sl. var formlega gengið frá verklokum vegna innleiðingar á Microsoft Dynamics AX 3.0 (áður Axapta) hjá Landsvirkjun og Landsneti.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá HugurAx, sem hefur umsjón með Dynamics AX 3.0 en verksamningur var undirritaður í maí 2006 og hófst verkefnið strax í framhaldi af því.

Fram kemur að fjárhagsáætlanahluti kerfisins var tekinn í notkun í september það ár og launakerfið í desember sama ár. Í framhaldi af því voru tekin í notkun kerfi fyrir fjárhag, lánardrottna og viðskiptavini, móttöku- og greiðslu reikninga, verkbókhald, birgðir og innkaup og tollkerfi. Innleiðing mannauðskerfis tók síðan við og í framhaldi af því innleiðing eigna- og fyrningakerfis.

Samhliða innleiðingu staðlaðra eininga hafa ýmsar séraðlaganir verið gerðar. Eins og sjá má af þessari upptalningu er hér um mjög víðfeðmt upplýsingakerfi að ræða sem tekur á flestum þáttum í starfsemi fyrirtækjanna.   Í tilkynningunni kemur fram að nú er Dynamics AX 3.0 notað af Landsvirkjun, Landsneti, Landsvirkjun Power, Hydrokraft Invest Ltd. og Íslenskri jarðhitatækni. Kerfið er notað reglulega af 200 -300 starfsmönnum sem ýmist tengjast því beint eða gegnum veftengingu.