Í fjölmiðlum hefur komið fram að Orkuveita Reykjavíkur rökstyður gjaldskrárhækkun sína með því að Landsvirkjun hafi hækkað orkuverð um 10% á síðustu tveimur árum. Landsvirkjun telur þessa röksemdafærslu ekki standast í grein sem birtist á heimasíðu fyrirtækisins.

Upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur (OR) hefur sagt í fjölmiðlum í tilefni af gjaldskrárhækkun OR til viðskiptavina sinna að hækkun OR upp á 2,4% sé til komin vegna 10% hækkunar á raforku í heildsölu frá Landsvirkjun á undangengnum tveimur árum.

Það er mat Landsvirkjunar að þessi ummæli standist vart skoðun segir í frétt þeirra. OR kaupir raforku frá Landsvirkjun að stórum hluta með langtímasamningum. Í þá samninga er innbyggð raunlækkun á verði milli ára. Á þessu ári hefur Landsvirkjun að auki boðið svokallaða grunnorkusamninga sem OR hefur nýtt sér til að kaupa hluta af raforkunni sem fyrirtækið selur síðan áfram í smásölu. Heildsöluverðið í grunnorkusamningum er mun lægra en það sem felst í langtímasamningunum og þeir samningar fela því í sér lækkun á einingaverði í heildsölu segir Landsvirkjun.

Aukinn kostnaður OR vegna samningsbundinna raforkukaupa af Landsvirkjun á milli áranna 2005 og 2006 nemur ekki meira en rúmu hálfu prósenti segir í frétt Landsvirkjunar. Þar er bent á að hækkanir á heildsöluraforku séu í takt við almennar verðlagsbreytingar að teknu tilliti til innbyggðrar raunlækkunar í langtímasamningum eins og þeim sem OR hefur gert við Landsvirkjun verða vart meiri en 1,0-1,5% um næstu áramót.

"Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa það í huga að heildsölukaupin eru einungis rúmur þriðjungur af verðmyndun raforku í smásölu.

Því fer fjarri að kostnaður OR af raforkukaupum í heildsölu af Landsvirkjun geti verið eina skýringin á því að OR telur sig knúna til að hækka raforkutaxta sína um 2,4% um næstu áramót eins og talsmaður þess fyrirtækis lætur koma fram í fjölmiðlum," segir í frétt Landsvirkjunar.