Lánsfjárkreppan étur ekki eingöngu upp auð Breta. Hún er jafnframt að fara með heilsu þeirra ef marka má nýja könnun sem kynnt var í gær.

Samkvæmt nýrri könnun Breska blóðþrýstingssambandsins, sem eru hjálparsamtök á heilbrigðissviði, vanrækja íbúar landsins í auknum mæli heilsu sína. Könnunin leiðir í ljós að þeir borða nú óhollari mat til þess að spara peninga sem þeir eyða svo frekar í áfengi og tóbak. Samkvæmt könnuninni æfir um fimmtungur Breta minna en þeir gerðu og 37% þeirra segjast hafa meiri áhyggjur en áður. Á sama tíma og þessi óhollusta fer vaxandi hefur fasteignaverð í Bretlandi fallið um tíu prósent, hagvöxtur fer minnkandi, traust manna á breska hagkerfinu fer þverrandi og atvinnuleysi fer vaxandi.

Eins og fram kemur í umfjöllun Dow Jones-fréttaveitunnar staðfesta aðrar kannanir að fylgni sé á milli versnandi efnahagsástands í Bretlandi og hrakandi heilsufars. Í síðustu viku voru birtar tölur frá tryggingafélaginu Prudential um að um 11 milljónir íbúa landsins stæðu frammi fyrir “heilsufarskreppu” vegna efnahagsástandsins. Dow Jones hefur eftir Katie Roswell, yfirmanni hjá tryggingafyrirtækinu, að óttast sé að lánsfjárkreppa verði að heilsufarskreppu þar sem líkur séu á að fólk minnki neyslu á ávöxtum og grænmeti og standi í þeirri trú að það sé dýrt að rækta skrokkinn.

McDonalds teknin fram yfir lífrænan mat

Könnun Breska blóðþrýstingssambandsins bendir jafnframt til þess að vaxandi verðbólgu leiði til þess að neytendur kaupi frekar ódýrari og óhollari mat. Samkvæmt könnuninni kaupa 56% aðspurðra ódýrari mat til þess að spara og 15% hafa dregið úr neyslu á ávöxtum og grænmeti. Þessi þróun endurspeglast meðal annars í því að sala á lífrænt ræktuðu fæði hefur fallið um 20% undanfarna mánuði á meðan sala hjá skyndibitakeðjunni McDonalds jókst um 7,4 á öðrum fjórðungi.

Baslið leiðir Breta í búsið

Svo virðist sem lánsfjárkreppan geri það jafnframt að verkum að Bretar leiti í auknum mæli eftir félagsskap óminnishegrans alræmda. Tölur sýna að áfengisneysla hefur aukist um 7% frá því að lánsfjárkreppan skall á í fyrra og að sama skapi reyki 6% fleiri Bretar en á sama tíma í fyrra.

Bresk stjórnvöld virðast vera meðvituð um að niðursveiflan í efnahagslífinu kunni að hafa víðtæk félagsleg áhrif. Í skjali sem lekið var til fjölmiðla í síðustu viku varaði innanríkisráðuneytið Gordon Brown, forsætisráðherra í ríkisstjórn Verkamannaflokksins, við því að efnahagssamdrátturinn gæti leitt til aukningar glæpa og öfgahyggju auk vaxandi spennu milli ólíkra þjóðfélagshópa.