Matsfyrirtækið Standard & Poor’s hefur hækkað matseinkunn Tryggingamiðstöðvarinnar (TM) úr BB+ í BBB-. Horfur eru metnar stöðugar. Í rökstuðningi fyrir matinu segir S&P meðal annars að fjárhagur félagsins hafi styrkst og að fyrir liggi lengri saga um jákvæða afkomu af vátryggingarekstri. Þá sé samkeppnisstaða TM betri en áður, vörumerkið sé sterkt og þróun í verðlagningu sé jákvæð.

Í tilkynningu er haft eftir Sigurði Viðarssyni, forstjóra TM, að markmiðið hafi alltaf verið að ná lánshæfismati félagsins á sama stað og það var fyrir hrun íslensks efnahagslífs haustið 2008. Hækkun á lánshæfismati gefi TM tækifæri til þess að sækja viðskipti út fyrir landsteinanna í enn ríkari mæli en verið hefur.

Um 6% af iðgjaldatekjum félagsins koma nú erlendis frá og segir Sigurður að fyrirtækið hafi haft mikinn hug á að stækka þann hlut, enda séu vaxtartækifæri á íslenskum vátryggingamarkaði takmörkuð. Þá bendir hann á að einkunn TM sé í dag sú sama og S&P hefur veitt langtímaskuldbindingum íslenska ríkisins.