„Ég hef reynt að vekja máls á þessu í þrjú ár en ekki enn fundið þessu skýran né formlegan farveg, en auðvitað eru orð til alls fyrst,“ segir Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, um verðtryggingu lána. „Ég hef haldið því fram að verðbólgan sé ekki bara orsök verðtryggingar heldur líka afleiðing. Það er innbyggt í þetta kerfi okkar sjálfkrafa víxlverkun sem er ekki sjálfkrafa í öðrum ríkjum í sama mæli,“ segir hann. Verðtrygging leggst á höfuðstól íbúðarlána allra heimila og er bundin vísitölu neysluverðs. Hún er því að vissu leyti falin í höfuðstólnum

Gísli segir að neytendur taki því ekki mikið eftir henni: „Verðtryggingin er falin í höfuðstólnum og greiðendur taka því ekki eins mikið eftir því mánaðarlega og ella. Ég er viss um að ef einstaklingar tækju eftir því meira mánaðarlega væri löngu búið að bregðast harðar við verðbólgu og koma henni niður.“

Veikari aðilinn ber áhættuna

„Stærsti augljósi gagnrýnispunktur minn á verðtrygginguna er að það er óvenjulegt að veikari aðilinn, sem er neytandinn, beri ekki einungis hluta áhættunnar heldur alla áhættuna vegna óvissunnar um atburðinn, sem er verðþróunin,“ segir Gísli. Hann hefur verið spurður hvort hann vilji arðræna sparifjáreigendur, en hann tekur fyrir það og segist ekki vilja að lánsfé rýrni heldur að það sé fyrirfram umsamið hverjir vextirnir eigi að vera og báðir aðilar viti af því. Hann segir ekki erfitt að rökstyðja þetta. „Mjög fáir hagfræðingar virðast deila mínum efasemdum og halda að þetta sé misskilningur hjá mér. Svo hef ég einnig verið spurður um neikvæð áhrif á lífeyrissjóðina ef verðtryggingin yrði afnumin,“ segir Gísli og vill svara því þannig að þar sé starfandi hæft fólk og hann treysti því til að ávaxta krónur lífeyrisþeganna.

„Lífeyrissjóðirnir þurfa ekki axlabönd auk beltis til að hjálpa sér við sitt starf“ Gísli segir umræðuna um afnám verðtryggingar snúast um tvö skref. Í fyrsta lagi hvort um ræði brot gegn hagsmunum og réttindum neytenda, sem hann hafi gefið í skyn að undanförnu. Næsta skref sé að finna hvað geti komið í staðinn. „Það er ekki augljóst að valkostirnir séu annaðhvort bara núverandi fyrirkomulag eða afnám verðtryggingar. Ég hef velt upp nokkrum millistigum af því.“ En hvernig hljómgrunn fær talsmaðurinn frá neytendum í landinu? „Ég fæ oft hörð og gagnrýnin viðbrögð frá hagfræðingum og ráðandi aðilum en mjög góð viðbrögð frá almenningi, og þá sérstaklega upp á síðkastið,“ segir Gísli.