„Þið eruð ekki í það slæmum málum að þið þurfið að fá einhvern annan til að sjá um stjórn peningamála fyrir ykkur,“ segir Lars Christensen, forstöðumaður hjá greiningardeild Danske Bank. Hann kynnti nýja greiningu bankans um íslenskt efnahagslíf á fundi VÍB, eignastýringarþjónustu Íslandsbanka, í morgun. Bankinn spáir því að hér verði 2,2-2,9% hagvöxtur á næsta ári.

Á fundinum sagði Christensen leiðinlegt að sjá að gjaldeyrishöft skuli enn vera til staðar þar sem áhrif þeirra á hagkerfið séu afar neikvæð. Ríkisstjórninni geti hins vegar hugnast ágætlega að hafa höftin því það geri stjórn peningamála einfaldari en ella. Þrátt fyrir þau telur hann stöðu hagkerfisins ágæta. Það er ekki síst fyrir þær sakir að önnur lönd á meginlandi Evrópu hafa látið á sjá í fjárkreppunni.

Christensen sagði hins vegar evruna enga lausn og notaði orðalagið heilagur kaleikur eða gral.

„Þið notið krónuna núna. Ég held að stjórn peningamála sem miða við hana geti skilað árangri,“ sagði hann.