„Það er ákveðin áhætta fólgin í því að fara þessa leið. Ég trúi því að við ættum að geta unnið þetta mál. En maður verður að reikna með hinum möguleikanum,“ segir Lárus Blöndal, sem sæti átti í Icesave-samninganefndinni svokölluðu sem náði því samkomulagi sem fellt var í þjóðaratkvæðagreiðslu í vor.

Lárus hefur í gegnum tíðina varað við dómstólaleiðinni. Hann bendir á að ESA hafi unnið nánast öll sín mál fyrir EFTA-dómstólnum, í kringum 90% allra mála.

Eins og frá var greint í morgun hefur Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, ákveðið að færa Icesave-málið fyrir EFTA-dómstólinn.

Lárus segir ákvörðunina ekki hafa komið á óvart,  ESA hafi ítrekað sagt að málið gæti farið fyrir dómstólinn.

Hann segir í samtali við Viðskiptablaðið dómstólaleiðina taka á bilinu eitt til tvö ár. Óvíst sé hvað taki við eftir það. Verði niðurstaða EFTA-dómstólsins sú að Íslendingar hafi brotið gegn tilskipun um lágmarksinnstæðutryggingar megi ekki útiloka annað dómsmál í framhaldinu þar sem tekist verði á um það hvernig bæta eigi fyrir brotið.

„Það getur verið skynsamlegt í staðinn að fara sáttaleiðina,“ segir Lárus.