Engar afsakanir! Engin uppgjöf! Hámarks árangur!

Þetta eru slagorðin sem blasa við manni þegar komið er inn í æfingarstöð Bootcamp við Suðurlandsbraut (þar sem GYM 80 var áður til húsa).

„Það á að vera áskorun að koma hingað og það er sigur þegar fólk nær að yfirstíga þá áskorun,“ segir Arnaldur Birgir Konráðsson, sem ásamt Róberti Traustasyni stofnaði Bootcamp haustið 2004. Viðskiptablaðið kynnti sér nýlega rekstur stöðvarinnar.

Það er ekki mikill íburður í húsnæði Bootcamp. Á neðri hæðinni er stór æfingarsalur ásamt róðrarvélum, upphífingargrindum og boxpúðum. Hnefaleikafélag Reykjavíkur er einnig með aðstöðu í húsinu. Á efri hæðinni er lítill lyftingasalur með tækjum og tólum, þá er annar salur sem notaður er fyrir teygjur og aðrar æfingar auk búningsklefa. Við hlið hússins er hellulagt port þar sem stundaðar eru ýmsar æfingar.

„Við höfum látið skynsemina ráða ferðinni við rekstur Bootcamp og gætt þess að fara ekki fram úr hófi,“ segir Róbert og bætir því við að húsnæðið sé vel nýtt. Auk þess fara æfingar fram á svæðum í kring, m.a. annars í Laugardalnum og við Ármúla og ekki er óalgengt að sjá þátttakendur bera sandpoka á bílastæðinu fyrir utan.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .