Latcharter, dótturfélag Icelandair Group í Lettlandi, hefur tekið upp nýtt nafn og heitir nú SmartLynx.

Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandair Group og Garðar Forberg framkvæmdastjóri Latcharter afhjúpuðu nýja nafnið og útlit við athöfn í Ríga í Lettlandi í dag þar sem 15 ára starfsafmæli félagsins var fagnað.

Að sögn Garðars var við hæfi að standa að nafnabreytingunni og innleiða nýtt útlit á þessum tímapunkti.

„Staða okkar innan fluggeirans hefur gjörbreyst á síðustu tveimur árum með miklum vexti og breyttum áherslum.Við vildum auðkenna okkur með nýjum hætti á markaði þannig að það endurspeglaði okkur betur sem fyrirtæki og þá menningu sem hér ríkir. Við erum nú alþjóðlegt fyrirtæki í fjölþættum rekstri,“ segir Garðar.

Garðar sagði jafnframt að nýja nafnið gæfi færi á að leika sér með orð og merkingar. „Lynx“ er enska orðið yfir kattardýrið gaupu en vísar einnig til orðsins „links“ eða tengingar. Mynd af gaupu bregður fyrir í nýju einkennismerkingu SmartLynx. Að sama skapi þykir gaupan sem dýr vera útsjónarsöm skepna sem er sterk og með mikla aðlögunarhæfni.

SmartLynx í Lettlandi er allfarið í eigu Icelandair Group. Í flota félagsins eru 10 vélar. Tvær Boeing 767-300ER breiðþotur og átta Airbus 320-200 vélar. Starfsmenn eru 260 talsins. Við kaupin á félaginu fyrir tveimur árum síðan voru einungis tvær vélar í flotanum en nú er SmartLynx næststærsta flugfélag Lettlands og með veltu upp á 100 milljóni dollara á ári.

Félagið starfar á alþjóðlegum leigumarkaði og er í verkefnum vítt og breitt um heiminn. Félagið er til dæmis með vélar í verkefnum í Afríku, Mið-Austurlöndum og Evrópu.