Lettneski bankinn Lateko banka, sem er að mestu leyti í eigu athafnamannsins Jóns Helga Guðmundssonar, er að sækja 20 milljónir evra, sem samsvarar rúmlega 1,7 milljörðum króna, á sambankalánamarkað, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Lateko hefur skipað norræna bankann HSH Nordbank og Landesbank Berlin til að hafa umsjón með sölu á láninu til annarra banka á sambankalánamarkaði og segja erlendir sérfræðingar, sem Viðskiptablaðið hafði samband við, að umfjöllun Ekstrablaðsins og fréttir af lögsókn í Bandaríkjunum hafi ekki haft áhrif á áhuga fjárfesta á láninu.

"Ekstra Bladet hefur rétt fyrir sér í einni af 15 tilraunum og blaðamennirnir hafa ekki mikla þekkingu á viðskiptum. Allir bankarnir sem við höfum haft samband við hafa fengið upplýsingar um lögsóknina, en meintir svikarar voru með reikning í Lateko. Bankarnir hafa ekki miklar áhyggjur af þessu," sagði Marc Dalgas, sem stýrir sambankalánasviði HSH Nordbank í Kaupmannahöfn, í samtali við Viðskiptablaðið í gær.

Hins vegar telur Dalgas að vaxtkjör Lateko séu í lægri kantinum og þess vegna væntir hann þess ekki að mikil umframeftirspurn verði eftir láninu. "Við náum settu marki og líklega verður umframeftirspurn en þetta er í annað sinn á sex mánuðum sem Lateko sækir fjármagn á sambankalánamarkað," sagði Dalgas.

Vaxtakjör Lateko eru 75 punktar yfir EURIBOR og lánið er til 18 mánaða. Í sumar tryggði bankinn sér sambankalán að virði 21 milljón evra, en það lán var leitt af Kaupþingi banka og austurríska bankanum RZB. Vaxtakjör á því láni voru einnig 75 punktar yfir EURIBOR, sem sérfræðingar segja að séu mjög hagstæð kjör fyrir Lateko.

Straumborg, félag í eigu Jóns Helga Guðmundssonar, keypti 51% hlut í Lateko bankanum í janúar síðastliðnum en félög tengt honum hafa verið með starfsemi í Lettlandi frá árinu 1993. Straumborg keypti rússneska bankann Fineko Bank í sumar.