*

föstudagur, 19. júlí 2019
Innlent 14. júlí 2016 13:43

Laun hækka um 80%

Frá árinu 2006 til 2015 hækkuðu laun á almenna vinnumarkaðnum um 79,6% meðan heildarkaupmáttur jókst um 11%

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Á almennum markaði hafa laun hækkað um 79,6% frá 4. ársfjórðungi 2006 til 4. ársfjórðungs 2015. Hækkuðu laun um 78,3% hjá ríki og 78,6% hjá sveitarfélögum á þessu tímabili. Má því segja að launaþróun milli almenna markaðarins, ríkis og sveitarfélaga hafi verið mjög jöfn en hún nam að jafnaði 6,7% á ári.

Kaupmáttur eykst um rétt 11%

Á þessu tímabili var kaupmáttur launa í heild 11% meiri árið 2015 en árið 2006. Á tímabilinu minnkaði launamunur kynjana jafnframt því konur hækkuðu hraðar í launum en karlar.

Á þessu tímabili hækkuðu laun framhaldskólakennara langmest, eða um 100% frá nóvember 2006, en hækkunin nam 15,9% árið 2014 og 18,1% árið 2015. Var kaupmátturinn 24% hærri hjá þessari stétt en árið 2006.

Verkafólk hækkar mest, stjórnendur minna

Verkafólk hækkaði mest á almenna vinnumarkaðnum, en var hækkun þeirra í iðnaði um 93%, meðan stjórnendur hækkuðu minnst eða um 60%. Verkafólk í verslun hækkaði um 89% í launum og afgreiðslufók hækkaði um 81%, meðan stjórnendur í verslun hækkuðu um 62%.

Var hækkun verkafólks 89% í samgöngum og flutningum meðan stjórnendur hækkuðu um 66%. Einnig hækkuðu stjórnendur minna en aðrar stéttir hjá hinu opinbera.

Meðallaun hæst hjá BHM

Laun félagsmanna aðildarfélaga ASÍ á almennum markaði hækkaði um að meðaltali 8,8% á síðasta ári, það er frá nóvember 2014 til nóvember 2015, en á sama tíma hækkuðu laun félagsmanna um 7,1% hjá þeim sem starfa hjá ríkinu.

Kaupmáttur starfsmanna í ASÍ var 16% hærri en árið 2006, 15% hærri hjá grunnskólakennurum, 12% hjá félagsmönnum BHM sem starfa hjá ríkinu, 10% hærri hjá félagsmönnum ASÍ á almenna markaðnum og 9% hjá félagsmönnum BSRB sem vinna hjá ríkinu.

Á sama tíma hækkuðu félagsmenn aðildarfélaga BHM hjá ríkinu um 10,8% og félagsmenn aðildarfélaga BSRB hjá ríkinu hækkuðu um 8,2%. Voru meðallaun utan yfirvinnu hæst hjá félagsmönnum BHM, eða 552 þúsund, framhaldsskólakennarar voru næstir á eftir með 542 þúsund krónur en á almenna vinnumarkaðnum var meðaltal reglulegra launa 428 þúsund krónur.

Stikkorð: ASÍ kaupmáttur BSRB BHM Launahækkanir