Laun hækkuðu um 0,4% á milli maí og júní síðastliðinn og hafa þau þá hækkað um 8,8% yfir síðustu tólf mánuði, segir greiningardeild Glitnis.

?Ekki hefur mælst svo hröð hækkun launa síðan í upphafi árs 2002 en þá líkt og nú var þróunin á vinnumarkaði lituð af því að tímabil þenslu var að ná hámarki sínu. Reikna má með því að hraðinn í launahækkunum muni aukast enn á næstunni þegar áhrif hins nýja samkomulags Samtaka atvinnulífsins annars vegar og Alþýðusambands Íslands og aðildarfélaga þess hins vegar verða sýnileg í opinberum tölum um launaþróun," segir greiningardeildin.

Það er búist við að fyrir haustið fari tólf mánaða hækkun launavísitölunnar yfir 10%, ?þannig að hraðinn í launahækkunum verður meiri en sem var mestur undir lok síðasta þensluskeiðs," segir greiningardeildin.

Hún segir að ofangreindar launahækkanir séu langt umfram vöxt framleiðni vinnuafls. ?Framleiðnivöxturinn hefur verið lítill núna undir lok þensluskeiðsins og samkvæmt tölum Hagstofunnar dró reyndar úr framleiðni á fyrsta ársfjórðungi. Við þessar kringumstæður er engin furða að verðbólgan láti á sér kræla en hún stendur nú í 8,4% og stefnir hærra samkvæmt spá okkar," segir greiningardeildin.