Samkvæmt tölum Ríkisskattstjóra voru meðallaun árið 2015 lægst í Reykjanesbæ, eða einungis 358.000 krónur á mann. Munaði tæpum 200 þúsund krónum á Reykjanesbæ og Fjarðabyggð. Aukinheldur var Reykjanesbær eina sveitarfélagið þar sem laun höfðu lækkað að raunvirði frá árinu 2000, eða um alls 5,23%. Launatekjur í Reykjanesbæ, þar sem einnig er tekið tillit til þátta á borð við dagpeninga, ökutækjastyrkja o.fl, höfðu lækkað um 9,8% að raunvirði. Þess má geta að í tölunum er einnig tekið tillit til fólks í hlutastarfi og má því gera ráð fyrir að laun fólks í fullu starfi séu að meðaltali eitthvað hærri.

Að sama skapi var Reykjanesbær í neðsta sæti þegar kom að meðaleign og hreinni eign hvers íbúa. Meðalíbúi Reykjanesbæjar átti eignir að verðmæti 14,4 millj­ónir króna, en fasteignir eru taldar með í þennan flokk. Þá skuldaði meðalíbúinn 8,1 milljón króna og hrein eign var því tæpar 6,3 millj­ónir að meðaltali. Eignir íbúa Reykjanesbæjar hækkuðu um 7,6% að raunvirði frá árinu 2000 en skuldir hækkuðu á sama tímabili um 20,6%. Hrein eign hafði alls lækkað um 5,7% að raunvirði og var Reykjanesbær eini stað­ urinn þar sem íbúar upplifðu raunminnkun í hreinni eign frá aldamótum.

Þrátt fyrir að laun í Reykjanesbæ hafi verið lægri í fyrra en um aldamótin fengu íbúar bæjarins 7,7% hækkun raunlauna á milli 2014 og 2015 og var einungis hægt að finna meiri hækkun í Fjarðabyggð og Vestmannaeyjum.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segist sjá merki um að bærinn sé á réttri leið og hefur ekki teljandi áhyggjur af stöðu mála.

„Okkar tilfinning er sú að laun fari hér batnandi og þetta sé á réttri leið, að meðallaun séu að hækka þar sem útsvar og tekjur Reykjanesbæjar eru að hækka. Við erum þannig séð ánægð með þessa þróun þó við vitum líka að það er hægt að gera betur og við munum halda áfram að laða hingað fyrirtæki sem borga há laun,“ segir Kjartan.