Regluleg laun á almennum vinnumarkaði hafa hækkað að meðaltali um 5,3% á tímabilinu frá 4. ársfjórðungi 2003 til 4. ársfjórðungs 2004 samkvæmt samantekt Hagstofunnar. Á sama tíma hækkaði vísitala neysluverðs um 3,8%. Samkvæmt því jókst kaupmáttur launa að meðaltali um 1,4%. Launahækkun starfsstétta var á bilinu 4,2% til 6,1%. Laun kvenna hækkuðu um 6,3% en karla um 4,8%. Laun á höfuðborgarsvæði hækkuðu um 5,1% en laun utan höfuðborgarsvæðis um 5,7%.

Kjarasamningar flestra launamanna á almennum vinnumarkaði runnu út í byrjun árs og tóku nýir samningar gildi á tímabilinu frá mars til júní. Þeir komu því til framkvæmda á tímabilinu sem hér um ræðir. Almenn launahækkun var 3,25% auk sérstakrar hækkunar á launatöxtum. Nokkrir kjarasamningar gilda fram á síðasta fjórðung ársins og fólu í sér hækkun launa um sl. áramót.

Launabreytingar eru mældar fyrir tæplega 8 þúsund einstaklinga sem voru í úrtaki bæði á 4. ársfjórðungi 2003 og 4. ársfjórðungi 2004. Meðalbreyting er hér meðaltal breytinga innan neðri og efri fjórðungsmarka. Þetta er því meðalbreyting fyrir helming launafólks í pöruðu úrtaki.