Tekjur 200 hæst launuðu forstjóra landsins hækkuðu að jafnaði um um 300 þúsund krónur á mánuði milli ára, úr 2,3 milljónum kr. á mánuði í 2,6 milljónir. Þetta er meðal helstu niðurstaðna Tekjublaðs Frjálsrar Verslunar sem kom út í morgun. Aðeins 21 kona er í hópi 200 efstu forstjóranna en þær hafa hins vegar hærri laun en meðaltal hópsins eða 2,9 milljónir að jafnaði á mánuði.

Forstjórar hafa nú siglt fram úr sjómönnum í launum en þeir síðarnefndu standa í stað milli ára með 2,5 milljónir á mánuði.

Næstráðendur er sá hópur sem tekur stærsta stökkið í launum milli ára en laun 200 efstu í þeim flokki hækkuðu um 600 þúsund krónur að jafnaði og eru 2,2 milljónir kr. á mánuði. Athygli vekur að í þessum tölum eru næstráðendur hjá Íslenskri erfðagreiningu undanskildir. Með þá innanborðs eru næstráðendur tekjuhæsti hópurinn með rúmar 2,6 milljónir kr. á mánuði. Átta næstráðendur hjá Íslenskri erfðagreiningu voru með launatekjur á bilinu sjö til fjórtán milljónir kr. á mánuði í fyrra.