Laun og launatengd gjöld Fjármálaeftirlitsins eru áætluð tæpir 1,3 milljarðar króna árið 2011 en eru 885 milljónir króna samkvæmt uppfærðri áætlun fyrir árið 2010. Hækkun launakostnaðar milli ára er því 367 milljónir króna eða rúm 41%.

Þetta kemur fram í greinargerð með frumvarpi um breytingar á greiðslu vegna opinbers eftirlits með fjármálastarfsemi. Frumvarpið var samþykkt á Alþingi í dag. Lögin miða að því að auka gjaldtöku af fjármálafyrirtækjum til að standa undir rekstri stofnana eins og FME.

Launahækkun hjá FME er sögð skýrast fyrst og fremst af fjölgun starfsmanna. „Á síðustu mánuðum yfirstandandi árs er gert ráð fyrir að ráðnir verði 12 nýir starfsmenn á verðbréfasviði vegna aukinna verkefna á sviði rannsókna á bankahruninu samhliða áformuðum auknum umsvifum sérstaks saksóknara. Fjöldi starfsmanna í árslok 2010 verður þá orðinn 99," segir í frumvarpinu.

„Vegna aukinnar áherslu á öflugar greiningar, vettvangsathuganir og strangara eftirlit er gert ráð fyrir 18 nýjum stöðugildum á árinu 2011. Þar af eru sex ný stöðugildi á lánasviði, tvö á lífeyris- og verðbréfasjóðasviði, tvö á stoðsviði, eitt á vátryggingasviði, fjögur á upplýsingatæknisviði, eitt á verðbréfasviði og tvö á réttarreikningsskilasviði. Áætlað er að fjöldi stöðugilda í árslok 2011 verði 117," segir ennfremur.

Gert er ráð fyrir að aukning á árinu 2011 reiknist frá byrjun ársins. Áætlað er að um 17 framangreindra stöðugilda séu tímabundin störf vegna mikils umfangs rannsóknarverkefna á árunum 2011–2013 sem tengjast bankahruninu. Efnahags- og viðskiptaráðherra ákvarðar laun stjórnarmanna og verða þau 13,5 milljónir króna. á árinu 2011 en 12,4 milljónir árið 2010.