Hlutfallshækkanir launa nú eru sambærilegar við það sem gerðist þegar óðaverðbólga var á Íslandi, að sögn Halldórs Halldórssonar, formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga, en rætt er við hann í Morgunblaðinu í dag. Hann segir launakostnað orðinn mjög þungan bagga í rekstri sveitarfélaga og fari vaxandi. Fjármálaráðstefna sveitarfélaga hefst í dag á Hilton Nordica og verður fjallað um þessi mál þar.

Halldór segir að þær launahækkanir sem sjá megi í kjarasamningum bæði á almennum markaði og hjá ríki og sveitarfélögum séu svakalegar. „Við erum einhvern veginn búin að missa tökin,“ segir hann. Halldór segir að yfirstandandi viðræður á milli heildarsamtaka á vinnumarkaði, sveitarfélaga og ríkisins um leiðir út úr þeim vanda sem upp er kominn í kjaramálum, séu góðar og óhjákvæmilegt sé að smíða nýtt vinnumarkaðsmódel.

Fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa rætt við fjármálaráðherra um nauðsyn þess að tekjustofnar sveitarfélaga verði breikkaðir. „Við viljum fá aðkomu að fleiri tekjustofnum, til dæmis varðandi ferðaþjónustuna. Sveitarfélögin kvarta undan því að tekjur af ferðaþjónustu skili sér ekki til þeirra. Það er samhljóða álit sveitarfélaganna að ferðaþjónustan skili nánast engu til þeirra.“