Lee Hsien Loong, forsætisráðherra Síngapúr, trónir á toppnum sem launahæsti þjóðarleiðtogi heimsins í fyrra með 2,8 milljónir dala í laun á ári. Þetta gera tæpar 322 milljónir íslenskra króna á ári, 26 milljónir á mánuði. Mánaðarlaun forsætisráðherrans eru margföld meðallaun í Síngapúr.

Starfsbróðir hans, Manmohan Singh, forsætisráðherra Indlands er á hinum endanum á launakvarðanum með rétt rúma 4.000 dali í árslaun. Það gera 450 þúsund íslenskar krónur á ári, rétt rúmar 37 þúsund krónur á mánuði.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra er kemst ekki með tærnar þar sem Loong er með hælana. Mánaðarlaun hennar nema um 900 þúsund krónum á mánuði. Það jafngildir rétt rúmum 7.800 bandaríkjadölum á mánuði og 94 þúsund dala árslaunum.

Á meðal annarra þjóðarleiðtoga sem ekki komast inn á lista yfir þá tíu hæstlaunuðustu eru David Cameron, forsætisráðherra Bretlands. Hann er í 13. sæti með 215,4 þúsund dali í árslaun. Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, vermir 18. sætið með 115 þúsund dali í laun á ári.

Það er netmiðillinn The Richest People sem birtir lista yfir launahæstu þjóðarleiðtoga heimsins að frátöldum launum Jóhönnu Sigurðardóttur.

Topp tíu listinn lítur svona út:

  1. Lee Hsien Loong, forsætisráðherra Singapúr - 2,8 milljónir dala.
  2. Donald Tsang, leiðtogi Hong Kong - rúmir 513 þúsund dalir á ári
  3. Raila Odinga, forsætisráðherra Kenía - 428 þúsund dalir á ári.
  4. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna - 400 þúsund dalir á ári.
  5. Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands - 345,5 þúsund dalir á ári.
  6. Stephen Harper, forsætisráðherra Kanada - 296,4 þúsund dalir á ári
  7. Mary McAleese, forsætisráðherra Írlands - 287,9 þúsund dalir á ári.
  8. Julia Gillard, forsætisráðherra Ástralíu - 287 þúsund dalir á ári.
  9. Angela Merkel, kanslari Þýskalands - 283,6 þúsund dalir á ári.
  10. Naoto Kan, forsætisráðherra Japans - 273,7 þúsund dalir á ári.