Launakostnaður Actavis er orðinn samkeppnishæfari eftir hrun og framleiðslukostnaður er viðunandi, segir Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, forstjóri Actavis á Íslandi. Hún hélt erindi á fundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga í dag.

Guðbjörg Edda tók undir orð Bjarna Benedikssonar um að óvissa fæli frá og sé slæm fyrir öll fyrirtæki. Hins vegar séu jákvæðir þættir meðal annarra og benti hún á launakostnaðin. Hann var orðinn alltof hár fyrir hrun, sagði Guðbjörg, en Ísland sé nú orðið samkeppnishæft. Lækkun framleiðslukostnaðar nemi um 45% frá árinu 2007 og gerði Actavis kleift að ráðast í stækkun verksmiðjunnar hér á landi, sagði Guðbjörg Edda.

Guðbjörg sagði að þegar fyrirtæki ákveði í hvaða landi þau ætli að starfa líti þau ekki einungis til eigin hagsmuna heldur einnig hagsmuni starfsfólksins. Því þurfi að huga að skattlagningu einstaklinga sem og fyrirtækja. Erfitt sé að fá gott starfsfólk til starfa ef skattlagning á launatekjur eru of háar. Guðbjörg vísaði í orð þingmanna um að hæsta skattþrep gæti orðið allt að 70% skattlagning.

„Við höfum gefið það upp að við erum ekki á leið úr landi. Við erum að setja upp höfuðstöðvar í Sviss. Þar er skattaumhverfið mjög hagstætt, ekki eingöngu fyrir fyrirtæki heldur einnig starfsfólk. Það breytir því þó ekki að Actavis verður áfram íslenskt fyrirtæki og við erum ekki á förum,“ sagði Guðbjörg að lokum.