Óleiðréttur launamunur kynjanna á Íslandi mældist 19,9% árið 2013 samanborið við 18,1% árið 2012, að því er fram kemur á vef Hagstofunnar . Launamunurinn jókst því um 1,8 prósentustig milli ára. Munurinn var tæpum fimm prósentustigum meiri á almennum vinnumarkaði en hjá opinberum starfsmönnum. Launamunur kynjanna milli atvinnugreina var mestur í fjármála- og vátryggingastarfsemi en minnstur í heilbrigðis- og félagsþjónustu.

Launamunurinn er óleiðréttur og því eru ýmsir þættir sem geta haft áhrif á laun einstaklinga ekki teknir með í reikninginn, svo sem starf, menntun og aldur. Fram kemur í fréttatilkynningunni að ólíkt vinnutímamynstur kynjanna hafi einnig áhrif á niðurstöðurnar vegna þess að greidd laun fyrir yfirvinnu eru með í útreikningum og karlar vinna að jafnaði meira en konur. Með því að reikna óleiðréttan launamun fæst því ákveðin mynd af launamun kynjanna sem getur mögulega skýrst af þessum þáttum.