Launavísitala í júní 2016 er 581,6 stig og hækkaði um 1,5% frá fyrri mánuði. Þetta kemur fram á vef hagstofunnar. Síðastliðna tólf mánuði hefur launavísitalan hækkað um 12,5%. Vísitala kaupmáttar launa í júní 2016 er 136,7 stig og hækkaði um 1,3% frá fyrri mánuði. Síðustu tólf mánuði hefur vísitala kaupmáttar launa hækkað um 10,7%.

Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í júlí 2016 er 434,9 stig og lækkaði um 0,32% frá fyrri mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 396,0 stig og lækkaði hún um 0,55% frá júní.

Vísitala framleiðsluverðs í júní 2016 var 201,3 stig og lækkaði um 0,1% frá fyrri mánuði. Vísitala framleiðsluverðs fyrir sjávarafurðir var 262,9 stig, hækkaði um 0,3% frá fyrri mánuði og vísitala fyrir stóriðju var 176,2 stig, lækkaði um 1,0%.

Framleiðsluverð fyrir matvæli stóð í stað og vísitala fyrir annan iðnað hækkaði um 0,8%. Vísitala framleiðsluverðs fyrir vörur sem seldar voru innanlands hækkaði um 0,2% milli mánaða en vísitala fyrir útfluttar afurðir lækkaði um -0,2%.

Miðað við júní 2015 hefur vísitala framleiðsluverðs lækkað um 9,3% og verðvísitala sjávarafurða lækkað um 5,2%. Á sama tíma hefur verð á afurðum stóriðju lækkað um 22,0% en verð á matvælum hækkað um 3,7%.