Launavísitala í mars 2008 er 337,6 stig og hækkaði um 1,2% frá fyrri mánuði. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.

Áhrifa nýgerðra kjarasamninga landssambanda og stærstu aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins gætir í hækkun launavísitölunnar.

Samkvæmt samningunum sem undirritaðir voru þann 17. febrúar síðastliðinn áttu launataxtar að hækka um 18.000 krónur frá 1. febrúar 2008, auk samkomulags um sérstaka launaþróunartryggingu sem felur í sér 5,5% lágmarkshækkun launa frá janúar 2007 til gildistöku nýrra samninga.

Þar sem samningarnir voru ekki endanlega samþykktir fyrr en 12. mars síðastliðinn þá má gera ráð fyrir að þeir komi ekki að fullu til framkvæmda fyrr en í apríl.

Í vísitölunni gætir einnig áhrifa endurskoðunarákvæða samninga Kennarasambands Íslands (fyrir hönd Félags grunnskólakennara og Skólastjórafélags Íslands) og launanefndar sveitarfélaganna frá 8. mars 2007, sem meðal annars kvað á um hækkun allra starfsheita um einn launaflokk frá 1. mars 2008.

Síðastliðna tólf mánuði hefur launavísitalan hækkað um 7,8%.