Landsvirkjun hefur 87 milljónir Bandaríkjadala í lausu fé auk þess sem félagið hefur tryggan rétt til að draga á erlent veltilán upp á 282 milljónir dala sem hefur verið nýtt að hluta eftir bankahrun.

Að sögn Stefáns Péturssonar, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Landsvirkjunar, er lausafjárstaða félagsins trygg út árið 2011. Þetta er sterk staða í ljósi lækkaðs lánshæfismats fyrirtækisins og ríkissjóðs og vantraust á Íslandi á erlendum fjármálamörkuðum sem gerir það að verkum að nýtt erlent lánsfé er ekki í boði um þessar mundir.

Þannig hefur sá tími sem fjármögnun er tryggð verið lengdur en áður var talað um tímann til loka árs 2010. Eiginfjárhlutfall Landsvirkjunar í lok júní var 31% en var 30% fyrir ári. Um það bil 85% af lausafé Landsvirkjunar er geymt á reikningum erlendis vegna tilmæla viðskiptabanka félagsins sem eru margir af stærstu bönkum heims.

_____________________________

Nánar er fjallað um málefni Landsvirkjunar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .