Efnahagssvið Samtaka atvinnulífsins segir fjármálaáætlun hins opinbera ekki í samræmi við markmið ríkisstjórnarinnar um að vega á móti þenslu í hagkerfinu. Útgjaldaaukningin felur í sér auknar álögur á almenning í reynd. Viðskiptaráð Íslands segir að ekki liggi fyrir hvernig skuli forgangsraða í ríkisútgjöldum ef bjartsýnar forsendur áætlunarinnar bregðast.

Fjármálaáætlun hins opinbera 2018 til 2022 var lögð fram á Alþingi 31. mars síðastliðinn. Höfuðáhersla verður lögð á uppbyggingu innviða á borð við heilbrigðiskerfið, vegakerfið og menntakerfið, auk eflingar velferðarkerfisins. Skattkerfið verður einfaldað og gert skilvirkara með lækkun virðisaukaskatts, afnámi ívilnana og grænum sköttum. Stöðugleikaframlög slitabúa og óreglulegar tekjur á borð við arð­greiðslur og söluandvirði eigna verða nýtt til niðurgreiðslu opinberra skulda, sem verða helmingaðar á tímabilinu, úr u.þ.b. 41% af landsframleiðslu í 21%.

Útgjöld ríkissjóðs munu aukast verulega næstu fimm árin. Gert er ráð fyrir að raunvöxtur frum­ útgjalda (heildargjöld að frádregnum vaxtagjöldum) verði að jafnaði 3% á ári, sem jafngildir um 20 milljarða króna aukningu árlega. Stærstu útgjaldaliðirnir eru heilbrigðis- og velferðarmál.

Að segja eitt en gera annað

Óttar Snædal, hagfræðingur á efnahagssviði Samtaka atvinnulífsins, segir nýframlagða fjármálaáætlun hins opinbera, líkt og fjármálastefnuna, ekki í samræmi við yfirlýsingar og hagstjórnarlegt markmið ríkisstjórnarinnar um aðhald í ríkisrekstri.

„Við á efnahagssviðinu höfum leitað að hinu margumtalaða að­ haldi í fjármálaáætluninni án mikils árangurs,“ segir Óttar. „Þessi mikla útgjaldaaukning kallast seint aðhald í miðri uppsveiflu, þegar ríkið á að vera að búa í haginn til mögru áranna frekar en að magna hagsveifluna. Þar fyrir utan verða skuldir hins opinbera enn hærra hlutfall af landsframleiðslu árið 2022 en þær voru við lok síðustu uppsveiflu. Aðhaldið er ekki nægjanlegt.“

Útgjaldaaukningu hins opinbera er ætlað að koma til móts við uppsafnaða fjármagnsþörf á ýmsum sviðum opinberrar þjónustu. Á það sérstaklega við um heilbrigðiskerfið og velferðarkerfið, en gert er ráð fyrir að uppsafnaður raunvöxtur útgjalda til heilbrigðismála næstu fimm árin verði 22% og 13% til velferðarmála.

Óttar segir aukin ríkisútgjöld þó ekki vera sjálfbæra lausn á þeirri vöntun. „Það er ekki sjálfbær lausn að auka bara útgjöld. Í dag finnst vart þróað ríki þar sem opinber útgjöld eru hærra hlutfall af landsframleiðslu og sjáum við síst merki að til standi að breyta því. Þá gefur augaleið að það verð­ ur að forgangsraða. Sé vilji til að auka fjárveitingar á einum stað, þá má draga úr fjárveitingum annars staðar á móti.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .