Lax er í mestu uppáhaldi hjá Bretum þegar þeir borða fisk á veitingahúsum eða vínbörum. Þar með veltir laxinn þorskinum úr sessi, en þorskur og franskar hafa verið vinsælasti fiskrétturinn svo lengi sem elstu menn muna. Í þriðja sæti kemur svo túnfiskur og þar á eftir ýsa og rækja. Þetta kemur fram á vef Fiskifrétta.

Þetta er niðurstaða neyslukönnunar sem veitingahúsakeðjan Chef and Brewer í Bretlandi lét gera. Forráðamenn keðjunnar telja að auknar vinsældir laxins megi rekja til þess að það sé í tísku að borða lax. Þá spilli það ekki fyrir að hann sé feitur fiskur og ríkari af omega-3 sýrum en margar aðrar fisktegundir. Auk þess kunni stöðugar verðhækkanir á þorski að hafa sitt að segja.

Bent er á að eftir sem áður sé þorskurinn áfram eftirsótt fæða í Bretlandi því að minnsta kosti einn af hverjum tuttugu sem spurðir voru er sólginn í þjóðarréttinn fisk og franskar.

Góðu fréttirnar í þessari könnun eru þær að hlutfallslega fleiri Bretar borða fisk nú en áður. Fram kemur að næstum þriðjungur þjóðarinnar snæðir fisk þrisvar til fjórum sinnum í viku og á meðalheimili er fiskur á borðum að minnsta kosti tvisvar í viku.