Stjórnendur fjárfestingabankans Lehman Brothers reyna nú allt hvað þeir geta til að finna kaupanda að bankanum áður en sunnudagur rennur upp. BBC hefur heimildir fyrir því að takist það ekki, verði afleiðingarnar fyrir bankann hörmulegar. Meðal þeirra sem rætt er um sem hugsanlega kaupendur eru Bank of America. Einnig er breski bankinn Barclays sagður viðriðinn málið.

„Ef að ekki hefur fundist lausn þegar markaðir í Asíu opna eftir helgi gætu afleiðingarnar orðið skelfilegar,” segir heimildamaður BBC í samtali við fréttastofuna.

Orðrómar vestanhafs herma að fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna vinni nú hörðum höndum að því að hjálpa ti lvið yfirtökuna á bankanum. En eins og flestum er minnisstætt fjármagnaði ráðuneytið að stórum hluta yfirtöku JPMorgan á fjárfestingabankanum Bear Stearns, sem var fyrsta stóra hrunið vegna lánsfjárkreppunnar.

Sjóðstýring Lehman, sem er einn liður rekstrarins sem gengur í raun vel, verður hugsanlega seld sér.

Lehman tilkynnti um langmesta tap í sögu bankans á miðvikudag, en bankinn tapaði 3,9 milljörðum dollara á öðrum fjórðungi ársins. Félagið hefur lækkað um 80% síðan á mánudag.