Bjarni Benediktsson, Fjármála- og efnahagsráðherra hefur skipað tvo hópa til að vinna að endurskoðun tekjuskatts- og bótakerfa hjá einstaklingum og fjölskyldum. Eiga fyrstu tillögur þeirra að liggja fyrir á haustmánuðum þessa árs.

Þessir hópar, þ.e. stefnumótandi stýrinefnd og sérfræðingahópur, eru stofnaðir í tengslum við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 27. febrúar 2018 um aðgerðir í þágu félagslegs stöðugleika í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum markaði.

Þar kemur fram að endurskoða eigi tekjuskattskerfið með áherslu á lækkun skattbyrði og mögulegar breytingar gerðar á fyrirkomulagi persónuafsláttar og samspili við bótakerfi sem ætlað er að styðja við tekjulægri hópa.

Meðal þess sem skoðað verður að sett verði á fót heildstætt kerfi sem taki jafnt til stuðnings hins opinbera við barnafjölskyldur og stuðnings vegna húsnæðiskostnaðar, hvort heldur er fyrir íbúðareigendur eða leigjendur.

Í stýrinefndinni sitja eftirtaldir aðstoðarmenn þriggja ráðherra:

  • Páll Ásgeir Guðmundsson, aðstoðarmaður fjármála- og efnahagsráðherra, sem verður formaður
  • Bergþóra Benediktsdóttir, aðstoðarmaður forsætisráðherra
  • Arnar Þór Sævarsson, aðstoðarmaður félags- og jafnréttismálaráðherra

Meginhlutverk stýrinefndarinnar er að fylgjast með framvindu verkefnisins í sérfræðingahópnum og taka þátt í mótun og samþykkt einstakra tillagna sem verða til á vettvangi sérfræðingahópsins. Stýrinefndin hefur reglulegt samráð við samtök launþega og aðra þá aðila sem hagsmuna eiga að gæta við tillögugerðina.

Í sérfræðingahópnum sitja eftirtaldir sérfræðingar:

  • Axel Hall, hagfræðingur og lektor í HR, sem verður formaður hópsins
  • Benedikt Árnason, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu
  • Elín Alma Arthúrsdóttir, sviðsstjóri hjá RSK
  • Maríanna Jónasdóttir, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu
  • Ólafur Darri Andrason, skrifstofustjóri í velferðarráðuneytinu

Sérfræðingahópurinn hefur það hlutverk að annast greiningu verkefnisins, talnalega meðferð og útfærslu tillagna, m.a. á grundvelli fyrri skýrslna af sama meiði. Jafnframt skal horft til kerfa annarra landa, einkum Norðurlandanna.