Ívar J. Arndal, forstjóri ÁTVR, gerir vefverslanir með áfengi að aðalumræðuefni í ávarpi sínu í ársskýrslu ríkisfyrirtækisins. Hann segir að vefverslanir einkaaðila með áfengi muni leiða af sér afnám einkaleyfis ríkisins því ÁTVR myndi ekki lengur uppfylla skilyrði Evrópuréttar fyrir einkaleyfinu.

„Valið stendur um hvort halda eigi í áfengisstefnu sem fylgt hefur verið hér á landi í áratugi og stuðlað hefur að auknu heilbrigði íslenskra ungmenna, minni áfengisneyslu og betri lýðheilsu og almannaheill eða leggja áfengisstefnuna til hliðar og gefa smásölu áfengis alfarið frjálsa. Í þessum efnum verður ekki bæði sleppt og haldið,“ segir Ívar.

Hann segir að einkareknu vefverslanir hafi fengið að starfa óáreittar „þrátt fyrir að flestir séu sammála um að fyrir þeim sé ekki heimild í lögum og rekstur þeirra stangist á við einkaleyfi ÁTVR“. Ívar heldur því einnig fram að vefverslanirnar afhendi áfengi hverjum sem er þrátt fyrir ákvæði laga um að ekki megi afhenda og selja áfengi þeim sem eru yngri en 20 ára. Þar að auki séu þær opnar allan sólarhringinn, þvert á lög um lögbundinn opnunartíma áfengisverslana.

Engin millileið til

Ívar segir að smásala áfengis innanlands verði í raun gefin frjáls ef vefverslun einkaaðila verði leyfð en ekki sé hægt að gera upp á milli eða skilja í sundur hefðbundna smásölu og vefverslun.

„Í þessu máli er engin millileið til. Það er einfaldlega ekki hægt að vera með frjálsa samkeppni og einkasölu á sömu vöru á sama tíma.“

Slíkt fyrirkomulag brjóti bæði gegn íslenskum samkeppnislögum og Evrópurétti að sögn Ívars. Ef einkaaðilum á Íslandi er leyft að selja áfengi yfir netið sé sú sala komin í beina samkeppni við einkasöluna.

„Með því væri búið að opna fyrir markaðslögmálin og viðskiptahagsmuni einkaaðila með tilheyrandi samkeppni, verðstríði og söluhvötum en öll þessi atriði eru í beinni andstöðu við meginstef gildandi áfengisstefnu hér á landi. Þá yrði smásala áfengis ekki lengur grundvölluð á lýðheilsu og almannaheill sem er grundvöllur einkaleyfis ÁTVR. Með því að heimila einkaaðilum slíka verslunarstarfsemi liggur í hlutarins eðli að einkaréttur ÁTVR er um leið liðinn undir lok því ÁTVR uppfyllir ekki lengur skilyrði Evrópuréttar fyrir einkaleyfinu,“ segir Ívar.

Sjá einnig: Kröfum ÁTVR gegn Sante vísað frá

ÁTVR leitaði til sýslumanns á síðasta ári vegna meintra brota vefverslana með áfengi og fór fram á lögbann á Santewines, Bruggúsinu Steðja og Bjórlandi. Stuttu síðar kærði ÁTVR fyrirtækin þrjú en í mars síðastliðnum vísaði Héraðsdómur Reykjavíkur frá öllum kröfum ÁTVR . Ríkisfyrirtækið tilkynnti stuttu síðar að það myndi una niðurstöðunni en telji þó áfram að slíkar vefverslanir samrýmist ekki lögum, gangi gegn einkaleyfi ÁTVR og séu í beinni andstöðu við gildandi áfengis- og lýðheilsustefnu

Engin mismunun á innlendri og erlendri verslun

Mikið hefur verið rætt um að þörf sé á að jafna stöðu innlendrar og erlendrar verslunar með áfengi og vísað til þess að heimilt að sé að kaupa áfengi af erlendum vefverslunum en ekki innlendum.

„Þetta er rangt. Það er engin mismunun til staðar,“ skrifar Ívar.

Hann segir að einstaklingar megi flytja inn áfengi til eigin nota og skiptir þar engu hvort viðskiptin eigi sér stað í gegnum smávöru- eða vefverslun. Viðskiptin eigi sér stað fyrir utan yfirráðasvæðis íslenska ríkisins og eru því ekki í bága við einkaleyfi ÁTVR.

„Því er ekki um neina mismunun að ræða heldur ólík viðskipti. Annars vegar smásölu erlendis og hins vegar smásölu innanlands, sem íslenski löggjafinn hefur valið að binda einkarétti ÁTVR í því skyni að vinna gegn misnotkun áfengis, með það að markmiði að stuðla að bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð, draga úr skaðlegum áhrifum áfengisneyslu, vernda ungt fólk gegn neyslu áfengis og takmarka framboð á óæskilegum vörum.“

Sláandi munur á Íslandi og Danmörku

Ívar segir að til marks um mikilvægi aðhaldssamrar áfengisstefnu og þá sérstaklega gagnvart áfengisneyslu ungmenna, þá vilji ríkisstjórn Danmerkur nú herða sína frjálslyndu áfengislöggjöf til að sporna við unglingadrykkju.

Ríkisstjórnin þar í landi vísi til niðurstaðna Evrópsku vímuefnarannsóknarinnar, ESPAD, þar sem Ísland standi einna fremst og ástandið í Danmörku sé einna verst. Meðal annars komi fram að 6,7% ungmenna, 13 ára og yngri, hafi neytt áfengis í Danmörku en hlutfallið sé 1,8% á Íslandi. Þá hafi 59% dönsku ungmennanna í Danmörku drukkið fimm eða fleiri drykki í einu undanfarna 30 daga en hlutfallið var lægst á Íslandi eða um 7,6%.