Eiríkur Tómasson hæstaréttardómari komst í fréttirnar fyrir skömmu en stjórn STEF, samband tónskálda og eigenda flutningsréttar, gerði starfslokasamning við hann upp á 9 milljónir króna þegar hann var skipaður Hæstaréttardómari á síðasta ári. Þá hafði Eiríkur starfað í rúmlega 24 ár sem framkvæmdastjóri STEF.

Dómari í þriðju tilraun
Eiríkur var skipaður dómari í sinni þriðju atlögu að embætti dómara. Áður hafði hann sótt um stöðu héraðsdómara og hæstaréttardómara árin 2003 og 2004. Þá voru Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson skipaðir í sæti dómara
en þær ákvarðanir ráðherra voru umdeildar. Í bæði skiptin var Eiríkur á meðal þeirra umsækjenda sem Hæstarétti þóttu hæfastir í embættin. 

Hann hefur gefið út þó nokkur fræðirit um lögfræði til viðbótar við fjölda tímaritsgreina á sviði réttarfars. Hann þykir sérfróður
um málefni sakamálaréttarfars og höfundarréttar svo eitthvað sé nefnt. Til að mynda hefur Hæstiréttur Svíþjóðar fundið tilefni til að vitna í greinar hans um alþjóðlegan og norrænan höfundarrétt. Til marks um þekkingu hans á sviði höfundarréttar má nefna
að hann starfaði einnig í hlutastarfi sem framkvæmdastjóri STEF í rúm 24 ár þar til hann var skipaður hæstaréttardómari. Þeir sem þekkja til starfa hans á þeim vettvangi bera honum margir hverjir vel söguna og telja Eirík hafa þróað STEF að því sem það er í dag.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.