Fjármálaráðherra mælir í dag fyrir frumvarpi til breytingar á lögum um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána. Hins vegar liggur niðurstaða leiðréttingarinnar ekki ennþá fyrir.

Tryggvi Þór Herbertsson, verkefnisstjóri leiðréttingarinnar, segir í samtali við RÚV að hægt verði að svara því á fimmtudag hvenær menn geti séð umfang leiðréttingarinnar. Í lok síðasta mánaðar sagði hann hins vegar að flestir ættu að geta séð leiðréttinguna hjá sér um miðjan októbermánuð. Það hefur ekki gengið eftir.

Fram kemur í frétt RÚV að enginn treysti sér til þess að segja til um hvenær niðurstaða leiðréttingarinnar liggi fyrir þó að stefnt sé að því bráðlega. Aðgerðin hafi reynst flóknari en ráðgert var.