Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) birti í janúar UFS-mat Reitunar á innlendu eignasafni lífeyrissjóðsins miðað við eignastöðu LSR í lok júní í fyrra.

UFS-matið, sem er íslenskt heiti yfir ESG mat, er byggt á opinberum upplýsingum og fundum með forsvarsmönnum félaga. Félögum eru gefin stig fyrir umhverfismál, félagsleg mál og stjórnarhætti á skalanum 0 til 100, þar sem 100 er hæsta einkunn. UFS-matið, sem Reitun framkvæmdi fyrir LSR, náði til 68% innlendra eigna sjóðsins, en eignir sem matið náði ekki til voru t.d. óskráð verðbréf og framtakssjóðir.

Það sem vekur einna helst athygli er að leigufélagið Heimavellir, nú Heimstaden, er í neðsta flokki í eignasafni LSR, eða flokki D. Þó ber að nefna að mat Heimavalla var framkvæmt árið 2020 þegar félagið var enn skráð á markað.

Matið á Heimavöllum er því eldra samanborið við önnur möt í töflunni, sem voru flest öll framkvæmd á tímabilinu maí-desember 2022, að undanskildu mati á Búseta sem er frá desember 2021. Þá var UFS mat á Ríkissjóði og ÍL-sjóði framkvæmt árið 2020.

© vb.is (vb.is)

Heimstaden ekki aðili að samtalinu

Gauti Reynisson, framkvæmdastjóri Heimstaden, segir að eignir LSR í Heimavöllum felist í veðskuldabréfum í íbúðum í Reykjanesbæ. „Þetta eru hefðbundin skuldabréf á íbúðir sem voru útgefin af Heimavöllum á sínum tíma þegar það var skráð á markað hér á landi,“ en félagið var skráð af markaði hérlendis árið 2020 og sameinaðist í kjölfarið samstæðu Heimstaden AB.

„Ég átta mig ekki alveg á því af hverju við komum svona lágt út í þessu mati,“ segir Gauti og bætir við að matið hafi einungis farið fram á milli LSR og Reitunar. Heimavellir, útgefandi bréfanna, hafi ekki verið aðili að samtalinu.

Hann segir að Heimstaden taki sjálfbærnismálin alvarlega. Þá sé sérstakur framkvæmdastjóri hjá félaginu sem sjái sérstaklega um sjálfbærnismál. „Við sem skuldabréfaútgefandi ættum að skora nokkuð hátt í þessum málum. Heimstaden-samstæðan er aðili að Parísarsáttmálanum og öllum stöðlum sem við koma ESG málum.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.