Eftir efnahagshrunið árið 2008 urðu töluverðar breytingar á íslenskum fasteignamarkaði. Ný kynslóð á markaði hefur átt erfiðara um vik að fjármagna sín fyrstu fasteignakaup og hefur þar margt áhrif – til dæmis aukin eiginfjárkrafa lánastofnana og verra ástand á vinnumarkaði. Leigumarkaður er því skyndilega orðinn mun stærri hluti af íslenskum fasteignamarkaði og er hátt leiguverð miðsvæðis og víðar í höfuðborginni algengt umræðuefni á kaffistofum.

Leiguverð hefur raunar hækkað meira en íbúðaverð á síðustu árum, ef marka má gögn frá Þjóðskrá Íslands sem birt voru samhliða nýju fasteignamati. „Það er engin leið að fullyrða enda tilhneiging hjá Íslendingum til að vilja eiga sínar íbúðir,“ segir Magnús Árni Skúlason, hjá Reykjavik Economics, aðspurður hvort búast megi við að vöxtur leigumarkaðarins sé varanlegur. Magnús Árni vinnur nú að skýrslu á vegum Íslandsbanka sem fjalla mun um stöðu fasteignamarkaðarins. Hann bendir á að þó að leiguverð sé hátt þá sé mismunandi hvort leiga dugi þegar tekið sé tillit til ávöxtunarkröfu fjárfesta. „Leiguverð er umtalsvert hærra miðsvæðis en þar er kaupverðið líka hátt. Það þarf að vera einhverskonar svigrúm til ávöxtunar á fjárfestingunni.“ Magnús bendir á að eftir því sem lánsfjárframboð aukist ætti þrýstingur á leiguverð að minnka. Erfitt sé þó sem fyrr að segja til um yngsta kaupendahópinn sem geti átt erfitt um vik að safna fyrir útborgun í íbúð. „Leiguhúsnæði hefur þann kost að bjóða upp á 100% fjármögnun án verð- og viðhaldsáhættu,“ segir Magnús Árni. „Söluáhætta er líka úr sögunni fyrir þá sem leigja.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.