Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 7,9% síðastliðna tólf mánuði á meðan vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 22% á sama tímabili. Ef horft er til áranna 2018 og 2019 má sjá að raunleiguverð er lægra núna en það var á þeim tíma.

„Það hefur ýmislegt hjálpað leigumarkaðnum á undanförnum árum. Stýrivextir hafa lækkað mikið og þar með vextir á íbúðalánum. Það sem gerðist líka í faraldrinum var að ferðaþjónustan minnkaði og fjöldi Airbnb íbúða dróst verulega saman, og var farið að dragast saman með falli Wow Air,“ segir Kári S Friðriksson, hagfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Hann bætir við að með auknu framboði hótelrýma hafi talsvert af íbúðum sem áður voru í útleigu í Airbnb orðið að leiguíbúðum. „Þetta eru allt þættir sem gætu nú verið að snúast við. Vextir hafa verið að hækka ört og hefur Seðlabankinn gefið sterklega til kynna að enn frekari vaxtahækkanir séu á döfinni. Ferðaþjónustan er að ná vopnum sínum á ný og í nýjustu mannfjöldaspá Hagstofunnar er gert ráð fyrir töluvert miklum fólksflutningi til landsins á næstu fimm árum. Þetta getur allt sett þrýsting á leigumarkaðinn og ég held að við gætum farið að sjá viðsnúning á næstu misserum.“

Stuðla verði að auknu framboði

Kári segir mikilvægt að leitað verði leiða til að auka framboð á íbúðum og bætir við að honum finnist ekki skipta máli hvort um sé að ræða einkaaðila eða óhagnaðardrifin leigufélög. „Við erum ekki þar núna að við getum eingöngu reitt okkur á óhagnaðardrifin leigufélög.“

Hann segir aukið framboð stuðla að meira aðhaldi gagnvart leigusölum. „Ef framboðið er nægt þá er meira aðhald á leigusölum og þeir komast síður upp með að hækka verð. Þá eykst öryggi leigjenda og það verður þægilegra að svo mörgu leyti fyrir þá að vera á leigumarkaði, ef öryggið er meira. Annars er hætt við því að það myndist valdaójafnvægi milli leigusala og leigutaka.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.