Vinkonurnar Bára Brandsdóttir og Eyrún Pétursdóttir ætla nú fyrir jól að gefa út spilið Talnastuð, en spilið er ætlað börnum þriggja ára og eldri. Spilið er skreytt fallegum vatnslitamyndum og er leikur að tölum í fyrirrúmi í spilinu. Þetta er þó ekki í fyrsta skiptið sem þær vinkonur gefa út spil. Fyrir jólin 2016 gáfu þær út spilið Stafastuð sem, eins og nafnið gefur til kynna, er stafaspil fyrir börn. Að sögn Báru er Talnastuð einskonar framhald af Stafastuði, nema hvað að nú snýst allt um tölurnar en ekki bókstafina.

„Hugmyndin að Stafastuði kviknaði þegar dóttir mín var fimm ára, en þá var hún komin með mikinn áhuga á stöfunum. Við áttum stafabækur og -púsl en mér fannst vanta einhverja fleiri skemmtilega möguleika fyrir hana til að leika sér með stafina. Ég settist því niður og ákvað að búa til heimatilbúið stafaspil fyrir hana. Hún var mjög ánægð með það og spilaði það mjög mikið. Spilið hjálpaði henni líka að læra stafina mjög vel og þegar hún fór svo að læra að lesa var hún fljót að ná góðum tökum á lestrinum.

Eftir að hafa séð þetta hugsaði ég með mér að það gæti verið sniðugt að gefa spilið út. Ég ákvað því að undirbúa útgáfu spilsins og þurfti fyrst að finna góðan teiknara til að gera útlit spilsins fallegt og skemmtilegt. Á þessum tíma bjuggum við Eyrún í sama húsi í Hlíðunum og var mikill samgangur á milli okkar fjölskyldna, en dætur okkar voru á þessum tíma báðar fimm ára og strax orðnar góðar vinkonur. Einn daginn var ég segja Eyrúnu frá þessu verkefni og nefndi að ég væri að leita að teiknara. Þá segir hún mér að hún sé nú alveg ágæt í að teikna, en fram að þessu hafði ég ekki hugmynd um að hún gæti teiknað. Í kjölfarið kom eiginlega ekki neitt annað til greina en að hún tæki þetta verkefni að sér og vinnan við að koma spilinu út fór á fullt. Spilið kom svo út fyrir jólin 2016 og vorum við himinlifandi með hvað spilið fékk góðar viðtökur. Nú þremur árum síðar ákváðum við svo að gefa út einskonar framhald af Stafastuði, þar sem einblínt er á tölurnar í stað stafanna."

Slegið í gegn í spilapartýum

Spilið er hægt að spila á nokkra mismunandi vegu og hentar því bæði börnum sem eru að kynnast tölunum og þeim sem eru lengra komin og byrjuð að vinna með tölurnar, t.d. við einfalda samlagningu og frádrátt. Leikreglur fylgja spilinu, en Bára bendir á að reglurnar séu ekki meitlaðar í stein. Því geti börn og fullorðnir sem spila með þeim búið til sínar eigin reglur og spilað eftir sínu eigin höfði.

Börn Báru og Eyrúnar hafa séð um að prufukeyra spilið og nokkrum sinnum haldið spilapartý fyrir vini sína. „Spilið hefur slegið í gegn hjá börnunum okkar og vinum þeirra, og núna vilja þau nánast stanslaust spila Talnastuð. Það er vart hægt að hugsa sér betri meðmæli en það, enda eru börn yfirleitt einstaklega hreinskilin og eru ekkert að fela það ef þeim þykir eitthvað leiðinlegt," segir Bára.

Söfnun farið vel af stað

Til að standa straum af framleiðslukostnaði Talnastuðs hafa vinkonurnar hafið söfnun á fjáröflunarsíðunni Karolina Fund , en þær fjármögnuðu einmitt framleiðslukostnað Stafastuðs með sama hætti. Á síðu Talnastuðs á Karolina Fund gefst fólki kostur á að kaupa Talnastuð og Stafastuð, auk jólakorta með myndum af dýrunum úr spilinu.

„Söfnunin fyrir Stafastuði gekk mjög vel og söfnunin sem er nú í gangi fyrir Talnastuð hefur farið vel af stað, en hún hefur kannski ekki farið af stað með jafn miklum hvelli og Stafastuð gerði á sínum tíma. Við eru þó bjartsýnar, það eru enn nokkrir dagar eftir af söfnuninni og yfirleitt er það þannig í svona söfnunum að það safnast mest í byrjun og svo undir lok hennar."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .