Envent Holding ehf. auglýsir um þessar mundir eftir tilboðum í gerð hagnýtingarskýrslu og frumhönnun fyrsta áfanga jarðvarmaorkuvers félagsins á Filippseyjum. Jarðvarmaþróunarfélagið Envent er í meirhlutaeigu Geysis Green Energy. Dótturfélagi Envent var í júlí 2008 úthlutað rannsóknar- og nytjaleyfi fyrir jarhitasvæði á Filippseyjum.

Í frétt frá félaginu kemur fram að um var að ræða endurúthlutun en svæðið var upprunalega rannsakað árið 1982. Svæðið er á Biliran eyju og tengist Visayas raforkukerfinu sem flytur u.þ.b. 1600 MW af raforku. Rannsóknaráfanga verkefnisins er að ljúka og er gerð hagnýtingarskýrslu (þ.m.t. frumhönnunar) fyrsta skref í framkvæmdaáfanga verkefnisins.

Jarðvarmasvæðið á Biliran eyju var upprunalega rannsakað árið 1982 og voru m.a. boraðar 3 rannsóknarborholur; gerð slíkra borhola myndi kosta um 15 milljónir bandaríkjadala í dag. Fyrirtækið sem var með rannsóknar- og nytjaleyfið á sínum tíma ákvað engu að síður að skila svæðinu þar sem ódýrari virkjunarkostir buðust á sínum tíma.

Framkvæmdastjóri Envent, Guðmundur F. Sigurjónsson, segir að félögin REI og Geysir hafi sóttu um rannsóknar- og nytjaleyfi fyrir svæðið í samstarfi við Filippeyskt fyrirtæki 2007 og fengið því úthluta í júlí 2008. „Síðan þá hefur verið í gangi rannsóknaráætlun sem mun ljúka í sumar. Markmið hennar hefur verið að endurmeta svæðið og nota til þess eldri jarðfræðigögn frá 1982 að viðbættum nýjum jarðefnafræðirannsóknum og vatnsrýmimælingum. Vatnsrýmimælingum hefur fleygt mikið fram frá árinu 1982 en þar er rafsegulútgeislun jarðar mæld til að meta magn vökva neðanjarðar," segir hann í tilkynningu.

Í tilkynningu er haft eftir Þór Gíslasyni stjórnarformanni Envent og tæknistjóra Geysis, að áætlað sé að kostnaður við fyrsta áfanga verkefnisins, sem er 50 MW raforkuvirkjun verði um 150 milljónir bandaríkjadala. Oft er áætlað að ráðgjafar- og hönnunarkostnaður fyrir jarðvarmavirkjanir sé um 10% af heildarkostnaði eða í þessu tilfelli 15 milljónir bandaríkjadala. Vonir standa þó til að hönnunarkostnaður verði lægri.

Aðspurður segir Guðmundur F. erfitt að áætla fjölda sérfræðistarfa sem ráðgjafa- og hönnun gæti skapað á Íslandi.  „Hér er um að ræða tilboð í fyrsta hluta ráðgjafar- og hönnunarhluta verkefnisins. Ef öll ráðgjafa- og hönnunarvinna endar á Íslandi erum við að tala um tuga starfa hjá íslensku verkfræðistofum. Það er núverandi stefna okkar að sem stærstur hluti verkefnisins verði framkvæmdur af íslenskum aðilum.“

Envent er jarðvarmaþróunarfélag með starfssemi á Filippseyjum. Félagið er í 80% í eigu Geysis og 20% í eigu REI. Hlutdeildarfélag Envent er að vinna að uppbyggingu jarðvarmavirkjunar á Biliran eyju á Filippseyjum. Fyrsti áfangi virkjunarinnar er áætlaður 50 MW en í heild er áætlað að virkjunin verði 150 MW.