Á nýjum vef Já.is er nú hægt að leita að vörum frá öllum íslenskum vefverslunum. Vefurinn var settur í loftið í dag með það að markmiði að auðvelda Íslendingum að gera góð kaup á netinu hjá íslenskum kaupmönnum.

Um er að ræða yfir 300 verslanir með yfir 500.000 þúsund vörur. Í vöruleitinni á vefnum gefst notendum tækifæri að bera saman vörur og verð hjá mismunandi söluaðilum. Notendur geta jafnframt búið til óskalista og fengið sendar tilkynningar þegar vörur eru á tilboði eða þegar verð breytist. Hægt er að deila óskalistum með vinum og vandamönnum.

Samhliða þessari nýjung hefur Já.is fengið nýtt útlit og er nú léttari, stílhreinni og hraðari en áður, en inniheldur áfram alla þá virkni sem notendur Já.is eru vanir að því er segir í fréttatilkynningu frá félaginu.

„Á einum stað verður nú hægt að leita í vöruúrvali yfir 300 íslenskra vefverslana, sem er bylting fyrir íslenska neytendur,“ segir Hreinn Gústavsson, vöru- & viðskiptaþróunarstjóri Já. „Við teljum að þær breytingar og viðbætur sem við erum að koma með á nýjum Já.is, séu jafn mikilvægar fyrir landsmenn og þegar við settum Já.is fyrst í loftið árið 2005.“