Bandarísku bílarisarnir þrír, General Motors, Ford og Chrysler hafa mátt þola að meðaltali -18% samdrátt í sölu á síðasta ári. Er þetta versta bílasöluárið í Bandaríkjunum síðan 1992.

Í desember var samdrátturinn enn meiri, eða að meðaltali -36% og -53% hjá Chrysler samkvæmt frétt í The Detroit News.

Salan á bílum frá General Motors dróst saman á árinu 2008 um -22,7% en -31,2% í desember.Hjá Ford nam samdrátturinn á árinu í heild -20,5%, en -32,3% í desember. Var þetta lélegasta söluár Ford síðan 1981. Chrysler toppaði svo þessar neikvæðu tölur með því að sýna -30% samdrátt á árinu í heild og -53,1% samdrátt í desember.

Bandarískur bílaiðnaður hefur á umliðnum tveim árum gengið í gegnum tvíþættar þrengingar. Fyrst var það umtalsverð hækkun á eldsneytisverði sem gerði það að verkum að fólksbílasalan fór í fyrsta skipti fram úr sölu á jeppum og skúffubílum á árinu 2007.

Sú þróun hefur haldið áfram með gríðarlegum skaða fyrir stóru bílarisana sem veðjuðu á að Bandaríkjamenn myndu halda í hefðina um kaup á stórum og eyðslufrekum bílum. Minnkaði salan á lúxusbílum á síðasta ári t.d. um -20,7%, á stórum fólksbílum um -31,7%, á litlum jeppum um -35,5%, millistærðar jeppum um -36,2%, stórum jeppum um -38% og  á skúffubílum um -26,5%.

Japanskir bílaframleiðendur einnig orðið fyrir barðinu á samdrætti í bílasölu í Bandaríkjunum sem lýsir sér vel í orðum Jim Lentz, forstjóra Toyota sem sagði:

„Það besta við árið 2008 er að það er liðið.”

Bílaiðnaðurinn líkt og þorri Bandaríkjamanna bindur miklar vonir við að Barack Obama muni gera kraftaverk í efnahagsstjórninni þegar hann kemur til valda á þessu ári. Hann vonast til að 775 milljarða innspýting í efnahagskerfið sem og 300 milljarða dollara skattaívilnanir muni geta snúið blaðinu við.

Út frá þeim væntingum er reiknað með að bílasala fari að rétta úr kútnum á miðju ári. GM og Chrysler hafa nú fengið 4 milljarða dollara hvort í aðstoð frá ríkinu í formi lána til að halda rekstrinum gangandi. Þá er ger ráð fyrir að GM muni sækjast eftir frekari aðstoð nú í janúar.

Sérfræðingar í bílaiðnaði telja þó að aukin lán til bílaiðnaðarins muni ekki bjarga þessum fyrirtækjum, nema því aðeins að algjör viðsnúningur verði á neytendamarkaði.